Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Breytingar

Nú er mál manna að kominn sé tími mikilla breytinga í heiminum. Hvítir menn hafa traðkað á öðrum kynþáttum í gegnum tíðina og enginn nema hvítur maður fengið að vera forseti Bandaríkjanna fram til þessa. Forsetabústaðurinn hefur því verið málaður upp á nýtt og fær brátt nýtt nafn, The Black House.the-blackhouse

Bréf til Dómsmálaráðherra

Sæll Bjössi Willis.  Á undanförnum árum hefur þú verið duglegur að efla varnir Íslands með því að stækka og efla sérsveitir lögreglu og landhelgisgæslu. Við höfum tekið þátt í heræfingum, sent friðargæsluliða til Írak og Afganistan og ýmislegt fleira sem getur stuðlað að því að verja landið okkar fyrir hryðjuverkamönnum og öðrum illmennum. Óvinir Íslands leynast víða og margir vilja okkur illt, að minnsta kosti s.l. mánuð. Held sko að loksins upp á síðkastið sé ég búinn að fatta hverjir hinir raunverulegu óvinir landsins eru.

Óvinirnir eru nefnilega við sjálf hér í landinu. Hér hafa hryðjuverkamenn í jakkafötum vaðið uppi og rústað efnahag landsins óáreittir, og sveitir Fjármálaeftirlitsins virtust ekki hafa hugmynd um hvað þessir dónar voru að bralla. Verst að þínir sérsveitamenn skyldu ekki hafa getað aðstoðað þá við að uppræta glæponana meðan þeir unnu hryðjuverk árum saman. Það hefði kannski bara verið sniðugara ef sérsveitarmennirnir þínir hefðu verið í jakkafötum, með aðsetur í Fjármálaeftirlitinu og kröftum og peningum þeirra eytt í að berjast gegn þessum hvítflibba-óþjóðalýð í bönkunum sem hefur terroriserað landið svoleiðis að það er sviðin jörðin eftir þá.

Fjármálaglæponar og bankaræningjar í jakkafötum eru nefnilega ekkert skárri en bófarnir sem mæta í útibú bankanna með klúta fyrir andlitinu og öskra á gjaldkerann að koma með peningana. Fjármálaglæponarnir eru reyndar töluvert stórtækari og taka peningana með miklu hljóðlátari hætti, peningana mína og þína, og þeir fá aldrei að fara á Hraunið fyrir eitt né neitt.

Bjössi minn, þú kannski nefnir þetta þegar þú ferð næst á fund með kollegum þínum í stjórninni, ef það skyldi nú verða haldinn annar fundur í æðstaráðinu.

Yðar einlægur, Freimóður Rammi, skattborgari á köldum klaka.


Um fagleg vinnubrögð stjórnvalda

Nokkrir athygliverðir punktar hafa komið  fram í fjölmiðlum að undanförnu:

Geir Haarde var spurður að því í sjónvarpsviðtali hvort hann teldi að ráðning Davíðs á sínum tíma í Seðlabankann hafi verið fagleg. Hann svaraði: "Já hún var fagleg, ég réði hann". Þannig starfa valdaklíkur einmitt. Þú ræður mig og ég ræð þig. Þeim finnst þetta sem sagt vera faglegt. Að ráða mann sem aldrei hefur unnið í banka eða fjármálastofnun til að stýra þessari gríðarlega mikilvægu stofnun, bara af því að nú er komið að ákveðnum flokki í röðinni að pota sínum gullkálfi að kjötkötlunum. Sama má segja um nánast allt bankaráðið, vinir og velgjörðamenn aðal bankastjórans í meirihluta í ráðinu, sitja þar á fundum og drekka kaffi og borða flott bakkelsi á dúndurlaunum og hlusta á kónginn upphefja sjálfan sig og segja brandara, endurunna úr Útvarp Matthildi.

Í viðtali við einn fjölmiðilinn segir mjög virtur bandarískur hagfræðingur um ástandið: "Landinu ykkar hefur verið stjórnað af flónum" Þetta getur ekki orðið mikið skýrara. Menn hlustuðu ekki á viðvaranir, þeir voru of klárir og það voru svo "myndarlegar" upphæðir að streyma í ríkissjóð frá snillingum í ofvöxnum bönkum. Í upphafi einkavæðingar og frjálshyggjuæðis var hér blóðhundum sleppt lausum, en sáralitlar girðingar settar upp. Svo ætluðust stjórnvöld bara til að blóðhundarnir höguðu sér vel og treystu þeim. Þeir óðu svo um allt og stukku yfir flestar girðingarnar og fljótlega kom það stjórnvöldu líka á óvart að sumir auðmenn í landinu fóru að verða of ríkir og valdamiklir og hlýddu ekki stjórnvöldum. Þeir hinir sömu fengu líka milljarða málaferli að launum frá fokvondu Bláu höndinni á kostnað skattgreiðenda.

Sænskur hagfræðingur sagði um daginn að "kapítalisminn hefði tekinn út í ystu öfgar á Íslandi", ekki einu sinni Bandaríkjunum sjálfum hefði nokkurn tímann dottið í hug að ganga svona langt. Flumbrugangur, fljótfærni og ákafi við að hleypa þessum frjálshyggjudraumi af stokkunum var framkvæmdur af flónum og öfgamönnum sem klöppuðu hver öðrum á bakið og sungu útrásarsöngva með Útvarp Matthildi skrúfaða í botn.


mbl.is Þjóðin í gíslingu Sjálfstæðisflokksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fésbók punktur.komm

Þar kom að því að maður lét undan gríðarlegum þrýstingi að skrá sig á Fésbók. Það er búin að vera einhver svaðaleg sprengja í skráningum undanfarið, það eru bókstaflega allir komnir þarna. Eftir viku tíma eru komnir skráðir "vinir" hjá mér yfir 100. Sá að Hemmi nokkur Gunn er þarna og hann á yfir 1300 vini á Fésbók takk fyrir segi ég og skrifa.

Sjötugur sjóari

Þessi magnaði kappi er sjötugur í dag. Hann gengur undir nafninu Nonni Begga og er trillukarl og harmonikkuleikari sem er búinn að beita svo margar línur um dagana að það hlýtur að nálgast heimsmet. Hann á allavega pottþétt metið í fjölda siglinga út og inn Fáskrúðsfjörð. Nonni byrjaði á sjó 9 ára gamall og er enn að. Myndin er fengin að láni af síðu Jóhönnu Hauks.077

Hugleiðing

Ýmislegt sem menn sögðu og skrifuðu í gamla daga var algjört rugl en sumt voru sannindi sem standast tímans tönn. Hugsuðir og spekúlantar vöruðu fólk við ýmsu í mannlegri hegðun sem væri afar slæmur löstur. Margt af þessu er allt enn í fullu gildi:

Græðgi var í gamla daga sögð ein af dauðasyndunum sjö og fólk forðaðist hana. En nú eru breyttir tímar því þessi ófögnuður er orðinn aðal drifkrafturinn í nútíma vestrænu þjóðfélagi og öllum finnst það bara í fínu lagi. Þjóðfélagið er búið að missa öll tök á græðginni og er að súpa seyðið af því nú síðustu daga.

Stolt virðist vera fylgifiskur græðginnar því nú til dags er sumt fólk svo upptekið af því að afla sér lífsgæða og fínnar stöðu að það má ekki vera að því að ala upp börnin sín því það þarf að fá sér aðeins flottari jeppa í stæðið en nágranninn, eða stærri flatskjá. Sumir vinir fólks verða skyndilega hallærislegir og nýir og flottari vinir eru teknir fram yfir. Sumir myndu frekar vilja deyja en að tapa öllu og verða fátækir. Dramb er falli næst.

Óhóf kemur svo í kjölfarið þar sem sumir sanka endalaust að sér hlutabréfum eða kaupa allt of stór hús og bíla á erlendum lánum og hætta aldrei að taka áhættur til að verða ríkari. Þeirra bíður ekkert nema fall sem óhófið nær tökum á. Það á við um allt sem við gerum og neytum, mat drykk, kynlíf og peninga.  

Losti verður svo til þegar óhófsmenn með of mikið góðæri missa tökin á tilverunni, fara of oft á Goldfinger eða sÓðal eða missa sig í því að eiga endalausan séns í hitt kynið vegna fullra vasa að seðlum.

Öfund bíður svo þeirra sem horfa á hina ríku og flottu velta sér upp úr allsnægtunum. Þeir vilja verða eins, en eru blindaðir af afbrýðisemi. Sem betur fer láta sumir sér nægja að lesa Séð og Heyrt og öfunda fína og flotta stjörnufólkið í litadýrðinni.

Leti segja sumir að sé ástæða þess að hinir öfundsjúku nái ekki árangri.

Reiði blossar svo upp þegar hinir stoltu og gráðugu fara að missa tökin á lífsstílnum og hlutabréfin gufa upp og peningarnir og vinirnir taka að hverfa. Það er oftast einhverjum öðrum að kenna og þá fara sumir að hefna sín og stinga í bök. Ætli það sé ekki það sem bíður efnahagslífsins á næstunni? Reiði er í það minnsta afar útbreidd á Íslandi um þessar mundir.


Kúnninn...

...hefur ekki alltaf rétt fyrir sér, það eru starfsmenn Brimborgar alveg með á hreinu. Ég ætla aldrei að eiga viðskipti við þessa skítasjoppu aftur.

Forsaga málsins er sú að við hjónin keyptum á sínum tíma notaðan Ford Focus hjá Brimborg. Maður taldi sig öruggan með að hafa keypt bíl af umboði, en ótrúlegt en satt þá áttuðum við okkur ekki á því fyrr en daginn eftir kaupin að bíllinn átti að vera búinn að fara í skoðun og við nánari athugun í smurbók var líka kominn tími á olíuskipti. Það var nánast eins og maður væri með dónaskap við þá þegar við reyndum að fá þetta í lag hjá umboðinu, það tók nokkra daga. Þar kom einnig í ljós að einhver hafði fengið bílinn "lánaðan" mjög mikið á meðan umboðið átti hann, því á 2 mánuðum hafði bíllinn verið keyrður nokkur þúsund kílómetra og þar af leiðandi enginn veitt því athygli að komið væri að olískiptum og bíllinn bara seldur þannig.

En að aðal málinu. Um ári eftir kaupin lendi ég í því að vera á keyrslu á þjóðvegi 1 rétt hjá Kirkjubæjarklaustri. Þá springur hliðarsætis-loftpúðinn í bílstjórasætinu með slíkum hvelli að það var eins og skotið væri úr haglabyssu við eyrað á mér og rýmið fylltist af reyk, enda eru þessir loftpúðar ekkert annað en sprengjur. Það var einungis lukka ein sem forðaði því að ég endaði hreinlega á hvolfi úti í hrauni. Sem betur fer er ég ekki taugaveiklaður eða hjartveikur eða neitt slíkt, en djöfull brá mér svakalega. Ekki veit ég hvað olli því að púðinn sprakk, djúp hola í veginum sem myndaði svona rosalegt högg eða steinn sem spýttist undir bílinn af miklum krafti eða hver fjandinn það var. Allavega var það bara einn púði sem sprakk, af hverju ekki allir? Og hvar er stór dæld á bílnum eftir högg eða árekstur sem kæmi loftpúðasprengingu af stað?

Ég fer í Brimborg og segi frá þessu. Þar segja þeir þetta aldrei hafa gerst án þess að það hafi komið töluvert högg á bílinn og þvertaka fyrir allt slíkt enda sögðust þeir hafa upprætt þannig mál þar sem eigandi bíls hafði verið að ljúga. Ég fór með það svar. Stuttu síðar lét ég 3 óháða skoðunarmenn hjá Frumherja líta á bílinn. Þeir tóku hann á gryfju og litu á allan undirvagn og allt stellið og sáu auðvitað ýmsar rispur eins og eru á öllum notuðum bílum en ekkert sáu þeir sem gæti hafa orsakað þessi læti þegar loftpúðinn sprakk. En Brimborgarmenn hlusta ekki á slíkt þvaður. Þegar ég fór aftur í umboðið og talaði ég við yfirmann verkstæðis þá sat einn þjónustugúbbinn á meðan á bak við hann og glotti háðslega á meðan við vorum að karpa um bílinn. Sá sem glotti var eflaust að hugsa: "enn einn svindlarinn mættur að rífa kjaft" Þessu lauk þannig að þeir tóku bílinn og mynduðu undirvagninn og skoðuðu. Svarið gat auðvitað ekki orðið neitt annað en það sem það varð. "Ýmsar ákomur á undirvagni" stóð á skýrslu og þar með var umboðið stikkfrí og glæponinn gómaður. Ég var s.s. bara að reyna að svindla á þeim. Það er alveg sama hvaða notaða bíl þeir tækju til skoðunar, þeir myndu alltaf finna einhverjar "ákomur á undirvagni"

Fyrst bíllinn var kominn inn á verkstæði var ég svo vitlaus að biðja þá að gera við þurrkurnar í leiðinni, sem voru komnar í hakk (algjört drasl) en það hefði ég betur látið gera annarsstaðar. Að skipta um þurrkuarm og stöng kostaði heilar 64 þúsund krónur takk fyrir, tók 2-3 tíma. Varð að sjálfsögðu afar ósáttur þegar ég fékk að þessa svimandi tölu frá sölumanninum en hann lækkaði þetta um 5 eða 6 þúsund kall eftir smá stund. Auðvitað létu þeir krimmann borga fullt verð fyrir ómakið að skoða og mynda undirvagninn, ekki fer umboðið að sitja uppi með slíkan kostnað. Það sagði við mig maður á verkstæði úti í bæ þegar ég greindi honum frá viðskiptum mínum við umboðið: "Ef þeir rengja mann ekki þá ræna þeir mann". Brimborg gerðu hvort tveggja.

Ég geri mér grein fyrir því að það er til hellingur af fólki sem reynir að svíkja eins mikið út úr fyrirtækjum og kerfinu og það mögulega getur og sem betur fer er það oftast gómað og látið gjalda. En því miður fáum við hin oft sömu meðferð.


Þegar rignir...

Það lítur út fyrir að við séum að fá annað rosalegt rigningarhaust. Konur eru (eins og allir vita) óðar í skó og geta því slegið tvær flugur í einu höggi með því að fara í þessa búð á Laugaveginum.ATT00151


Smokey-Bay

Íslendingar segja alltaf við útlendinga að Reykjavík þýðist sem Smokey-Bay á ensku. Bull. Í ensku er gerður greinarmunur á reyk og gufu en ekki alltaf í íslensku. Smoke=Reykur - Gufa=Steam. Reykurinn sem höfuðborgin er kennd við var að sjálfsögðu gufa. Reykur kemur frá einhverju sem er að brenna og ekki sáu landnámsmennirnir víkina vera að brenna svo að rétt þýðing væri sennilega Steam-bay eða Gufuvík.

Yfirlýsing Seðlabankastjóra

Í morgun var Davíð með yfirlýsingu niðri í Seðlabanka. Myndasmiðurinn Frame-óður Rammi ákvað að vera sömuleiðis með yfirlýsingu. Svona lítur yfir-lýstur Seðlabankastjóri út.yfirlystur_dabbi

« Fyrri síða | Næsta síða »

Ritstjóri

Guðmundur Bergkvist
Guðmundur Bergkvist
er kamerudýr, bjórhverfinga- maður og fyrrv. óðalsbóndi. Afar áhugasamur um sjónvarp, tónlist, kvikmyndir, eiginkonuna, knattspyrnu, veiðimennsku og internetið.
Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.2.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband