Leita í fréttum mbl.is

Versti viðskiptamaður áratugarins

Nokkrir álitsgjafar voru fengnir um daginn til að segja í sjónvarpi frá því hver þeim fyndist vera skandall ársins, versti viðskiptamaður ársins og ýmislegt fleira. Alveg varð ég steinhissa á því að enginn skyldi nefna Mr. Hannes Smárason sem versta viðskiptamann ársins, eiginlega áratugarins. c_documents_and_settings_administrator_desktop_hannes_smarasonÞessi svikahrappur er búinn að vera einn af aðalleikurunum í tveimur stærstu svikamyllum Íslandssögunnar, Decode svindlinu og FL Group hringrásar-mergsugunni sem bæði hafa kostað margan íslendinginn aleiguna. Hann mun aldrei þurfa að sæta neinum refsingum fyrir þessa glæpastarfsemi.

Fyrst var það Decode. Fyrir sirka áratug var fyrrnefndur Mr. Smárason aðstoðarmaður Kára Stefánssonar. Þeir sátu á leynifundum með stjórnendum verðbréfadeilda bankanna og ákváðu hreinlega gengið á bréfunum. Þeir sögðu öllum að gengið myndi fara endalaust upp og orðrómurinn var orðinn sá að gengið ætti eftir að fara upp í 200. Þáverandi forsætisráðherra lét ekki sitt eftir liggja í að hvetja þjóðina til dáða og drífa sig í að kaupa hlutabréf og grípa tækifærin sem sumir lögðu aleiguna í og aðrir tóku milljóna tuga lán því þetta var svo rakið dæmi.

Bréfin voru svo smá saman "ákveðin" upp í gengi sirka 60 á hinum unga íslenska rugl-hlutabréfamarkaði. Svo átti að fara með fyrirtækið inn á Nasdaq markaðinn í Ameríku. Þá áttu sko hlutirnir að fara að gerast og fólkið að græða feitt, en Decode-menn voru ekkert að hafa fyrir því að segja almenningi frá því þegar fyrirtæki fara þangað inn í fyrsta sinn þá þá fara þau aldrei inn á hærra gengi en 16-17 og sú varð raunin. Að vísu fór Decode inn á Nasdaq á sirka genginu 18 sem þótti mjög gott þá, skreið stuttu síðar upp í 28 og stuttu síðar var allt búið. En Mr. Smárason og fleiri sem vissu hvernig var í pottinn búið nýttu sér innherjaupplýsingar sínar, seldu bréf sín með flottum hagnaði til auðtrúa íslendinga sem fóru flestir á hvínandi hausinn eins og frægt er orðið. Mr. Smárason var orðinn moldríkur.

Svo mörgum árum síðar var það FL Group mergsugu-projectið, þar sem þeir félagar Mr. Smárason og Mr. Haraldsson náðu að sjúga nær allt hlutafé fólks á ævintýralegan hátt út úr FL group, síðar Stoðir og eitthvað annað. Mjög flókin og útpæld svikamylla. Þetta er útskýrt vel hér og part 2 er svo hér.


Ómar bloggar og bloggar

Vinur minn hann Ómar Ragnarsson bloggar svo mikið að það er engu líkara að hann sé kominn í fulla vinnu við það. Í ársbyrjun kaus hann 6 bestu setningar ársins 2008, hann lét fylgja með í skrifunum hvaða fréttamynd honum fannst best á árinu. Ómar á sennilega lengstan starfsferil íslenskra sjónvarpsmanna, ég tek mark á því Wink Þetta skrifaði Ómarinn:

3. "Gas! Gas!
Lögreglumaður í gasárás á mótmælendur við Rauðavatn.
Verður varla styttra og fyrir bragðið miklu sterkara, ekki hvað síst við að sjá og heyra þetta í ógleymanlegri nærmynd Guðmundar Bergkvists, kvikmyndatökumanns hjá Sjónvarpinu, sem tók áhættuna á því að verða sjálfur fyrir gasárásinni. Fréttamynd ársins
.


Hryðjuverkalög

Það er komið á daginn að það eru raunverulega til hryðjuverkamenn á Íslandi. Ruslaralýður sem brýtur og bramlar allt sem á vegi þess verður. Hvað hafa tæknimenn Stöðvar 2 gert þessu skítapakki sem segist vera að mótmæla óréttlæti en veit ekki alveg hvað það á að segja þegar það er spurt hverju það mótmælir og blásaklaust fólk fær bara einn gúmoren.

Aðal hryðjuverkamennirnir eru auðvitað þessir títtnefndu útrásarvíkingar sem störfuðu í skjóli yfirvalda og lögðu allt í rúst. Þeir hafa stungið undan miklu fé og falið það hér og þar um heiminn í bankaleyndu skjóli. Svona terroristar eiga ekkert minna skilið en að sett verði á þá hryðjuverkalög og það strax, og peningarnir notaðir til að borga skuldir þjóðarinnar sem við smælingjarnir höfum verið gerðir ábyrgir fyrir. En það er ekki til stjórnmálamaður með bein í nefinu á Íslandi sem þorir að vaða í þessa kappa og gera eitthvað í hlutunum, víkingarnir virðast enn vera of valdamiklir.


Kirkjan ögrum skorin

Nú er íslenska þjóðkirkjan lent í kreppunni, henni er gert að skera niður um heilar 400 milljónir. Það hefur verið ráðist á það allra heilagasta. Fyrir er kirkjunni algerlega skammtað úr lófa frá ríkinu. Hvernig eiga kirkjunnar menn að fara að því að vinna? Eiga þeir virkilega að fara að lækka launin hjá starfsfólki sínu, loka nývíðgðum kirkjum, jafnvel reka fólk, og auka svo álagið á starfsfólk gríðarlega? Þetta er ekki hægt, álagið á starfsfólk kirkjunnar er allt of mikið fyrir, of mikill aftansöngur eyðileggur raddbönd og að sami prestur jarðsyngi tvisvar á dag er hrein þrælkun. Það endar kannski með því að næst vilji ríkisstjórnin skilja ríki frá kirkju? Kirkjan er þarfasta og göfugasta stofnun landsins og það væri nær að skera bara meira niður hjá bruðl stofnunum eins og RÚV eða Háskólanum. Já eða spítalarnir, það má nú skera vel niður af þeim óþarfa. Ég meina komm onn, það var verið að vígja 2 nýjar kirkjur í desember. Á bara að láta þær standa tómar eða hvað? Þessi forsætisráðherra er bara fífl og dóni, hann ætti frekar að skera niður sín laun.

Heitt súkkulaði á Bessastöðum

Það er ekki í kot vísað hjá frú Dórríði á Bessastöðum. Þegar ég kom í konungshöllina, nei ég meina forsetabústaðinn í sveitinni fyrir stuttu þá bauð fyrsta frúin upp á dýrindis heitt súkkulaði, borið fram í ríkisstjórabollum Sveins Björnssonar frá árinu 1941. Aldrei hef ég fengið veitingar áður á Bessastöðum þrátt fyrir að hafa oft komið þar heim á bæ en súkkulaðið var alveg fyrsta flokks. Það var ekki stressinu fyrir að fara á heimilisfólkinu en þau buðu líka nokkrum reiðum grímuklæddum krökkum alla leið inn í stofu á fund þar sem einnig var boðið upp á ríkisstjóraheitt súkkulaði.a_bessastodum_756021.jpg

Jólunum reddað

Geir Ólafs er búinn að bjarga jólunum og góða skapinu, allavega hjá mér. Það þarf ekki annað en að horfa á þetta myndband og maður brosir sennilega alveg fram á næsta ár. Gleðileg Jól.

Í fréttum er þetta

Mér hefur oft fundist margt skrítið sem sagt er frá í fréttum. Nauðaómerkilegir hlutir sem sumum blaðamönnum þykja hipp og kúl rata á forsíður og fáránlegir hlutir eru gerðir að stórmáli. Á undanförnum árum hefur fáum fundist þess virði að flytja fréttir af sjávarútvegi og fiskveiðum, það er svo helvíti vond lykt af fiski. Það er alveg rétt sem sagt hefur verið, að það var snobbað ótrúlega fyrir fjármálageiranum í fréttum. Þá skoðun hef ég haft lengi.

En nú má viðurkenna að sjávarútvegur og landbúnaður séu mikilvægar undirstöðuatvinnugreinar og fréttaþátturinn Auðlindin er skyndilega kominn aftur á dagskrá og fleiri lesa Fiskifréttir, sem er reyndar bara orðið að ofurlitlu horni í Viðskiptablaðinu í dag. Í 10 fréttum RÚV er sem betur fer hætt að segja frá Nasdakk og Fútsí vísitölunum sem venjulegur meðaljón skilur ekkert hvað þýðir og bissnessliðið sem skilur það vissi allt um þegar það fór úr vinnunni seinni part dags.

Nú í desember er svo stanslaust sagt frá því í fjölmiðlum að jólin séu að koma. Er það frétt? Mér þætti það heldur vera frétt ef þau kæmu ekki, það mætti sko birta á forsíðum og vera fyrsta frétt í útvarpi og sjónvarpi ef svo væri.


Saga af klappstýru

Hvað skyldu nú mörg prósent af þessari bók vera sönn? Eitt sem vakti athygli mína þegar ég sá þessa bók. Af hverju er forsetinn með annan fótinn á kafi þarna á forsíðunni? Og af hverju er hann með orkuver á bak við sig? Kannski vegna áhuga hans á auðlindum og útrás, hann var jú klappstýra sömu gróðafíkla og reyndu að hrifsa til sín orkuverin og ætluðu með þau í útrás? Hann var auðvitað alveg á kafi í því blessaður.Lygasaga

Hvenær fer maður á hausinn?

Það er búið að tala um það í rúma tvo mánuði að Ísland sé farið á hausinn. Tekið var risalán til að bjarga landinu og svo var mikið fjaðrafok og læti eins og allir vita. Sumir segja að við eigum að skila láninu, að við þurfum það ekki því það geri bara illt verra. Maður skilur hvorki upp né niður í þessu rugli.

Svo eru menn sem stjórnuðu einkavæddum banka og töpuðu öllu sínu þegar bankarnir hrundu. Eða hvað? A.m.k. einn þeirra var að bjóða svimandi háar upphæðir í þrotabú bankans í Luxembourg. Hvað er í gangi? Þekktur íslenskur tónlistarmaður sagði frá því ítrekað í viðtölum eftir bankahrunið að hann væri gjaldþrota. Las síðan í gær frétt um sama mann þar sem sagt var frá því að hann væri að fá sér nýjan Land Cruiser. Hann sagðist verða að vera vel akandi þegar barn þeirra hjóna kæmi í heiminn á nýju ári.


Tvífarar

Tvífararnir að þessu sinni eiga það báðir sameiginlegt að vera spennusagnahöfundar. Annar heitir Geir Haarde og skrifaði óafvitandi spennutryllta raunverulega hryllingssögu, (með góðri hjálp félaga sinna að vísu). Hinn heitir Stephen King og er búinn að skrifa þær ófáar, sem betur fer eru það bara skáldsögur.tvifarar_haarde_king.jpg

Allt brjálað

Fréttir af logandi deilum í RÚV þessa dagana eru áberandi í fréttamiðlum landsins. Mér datt í hug þetta lag hérna með Bloodhound gang.

Kæra dagbók

Það er búið að vera undarlegt að vera til síðustu daga. Það eru niðurskurðar-hnífasett á ferðinni út um allar trissur og verið að reka fólk í stórum stíl úr vinnu. Líka á mínum vinnustað og maður er hálf dofinn. Það er eitthvað bogið við það að lesa að morgni dags hvað stendur til, á forsíðu Fréttablaðsins, sem er allt annar fjölmiðill en sá sem ég vinn hjá. Nánast engin af persónum forsíðugreinarinnar hafði heyrt neitt um innihald hennar þegar fríblaði Baugsmanna var stungið inn um lúguna eldsnemma þann morguninn.

Fór niður í bæ í dag að taka myndir af mótmælafundi. Þrír pistlahöfundar helltu úr skálum reiði sinnar í míkrófón, standandi inni í stórum sendibíl framan við skemmtistaðinn Nasa á Austurvelli. Svo ætlaði ég að taka myndir af liðinu sem skeytir skapi sínu á Alþingishúsinu. Þetta er orðið fastur liður í þjóðlífinu á laugardögum. Einungis rúlluðu kartöflur um gangstéttir og einhver gutti mætti með eggjabakka sem hann hafði keypt í 10/11 í Austurstræti og smurði eggjunum samviskusamlega á hvern glugga Alþingishússins. Það var allt og sumt af ólátum, sem betur fer. Kannski var árshátíð hjá Anarkistum í gærkvöldi og þeir allir voða þunnir og komust ekki niður á Austurvöll. Þeir láta þá kannski ennþá meira til sín taka á Arnarhóli á mánudaginn, verða þá líka búnir að fá atvinnuleysisbæturnar greiddar og geta keypt egg og tómata og fleiri vopn.

Kom heim úr vinnunni í kvöld og kveikti á imbakassanum. Á skjánum var skjallþátturinn "Gott klapp" á RÚV-inu. Ofmetnasti sjónvarpsmaður landsins með allt of skræka rödd hélt mér engan veginn við efnið svo að ég setti bara niðurhalaða kvikmynd með George Clooney í kassann í staðinn. Það er jú kreppa, eigum við ekki að klappa fyrir því! Já gefum þeim gott klapp.


Í höfuðstöðvunum

Þetta grín með Icesave er bara ansi gott, en það er a.m.k. eitt annað svipað myndband á jútjúb vefnum. Það fjallar um það þegar "foringjanum" eru færðar fréttir af raunverulegri stöðu mála í fjármálakrísunni. Mér finnst þetta vídjó betra en hitt.
mbl.is Felldi Icesave Hitler?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vísnahornið

Í liðinni viku dró einhver minnugur maður fram tveggja ára gamla klippu úr fréttum þar sem Forseti vor er að mæra útrásarsnillingana í hástert og lét þessi fleygu orð falla upp á engislaxnesku: "You ain't seen nothing yet". Nafni hans, Ólafur Auðunsson hirðskáld, var ekki lengi að snara fram kveðskap af tilefninu.

Ólafur var ógnar stór
með auðmannanna stétt.
Og allir sögðu í einum kór
"Jú eint sín notting jétt"

Klapp var stýran stórust þá
og stærilætið þétt.
Er allir horfðu uppá þá.
"Jú eint sín notting jétt"

Ef þotuliðið þeysti á loft
þá flaug 'ann undra létt.
Og það var bara ansi oft
"jú eint sín notting jett"

Útrásinni efldi mátt
það engin nú er frétt.
Og við Dabba er í sátt
"jú eint sín notting jett"

« Fyrri síða | Næsta síða »

Ritstjóri

Guðmundur Bergkvist
Guðmundur Bergkvist
er kamerudýr, bjórhverfinga- maður og fyrrv. óðalsbóndi. Afar áhugasamur um sjónvarp, tónlist, kvikmyndir, eiginkonuna, knattspyrnu, veiðimennsku og internetið.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband