19.6.2008 | 12:49
Óvinir Íslands
Það eru margar hætturnar sem steðja að íbúum þessa lands. Varnarmálaráðherrann hefur gert miklar ráðstafanir og sett fé í ýmis verkefni og svo eru aftur komnar hingað erlendar orrustuþotur til að tryggja varnir landsins og haldnar eru stórar heræfingar reglulega á landinu með miklum tilkostnaði.
En ráðherrann gleymdi einu. Hann er alltaf að reyna að herma eftir ákveðnum stórþjóðum sem eru búnar að koma sér upp óvinum út um allt. Hætturnar sem hann telur ógna landslýð eru ekki mannlegir óvinir okkar. Óvinur Íslands númer eitt er að sjálfsögðu náttúran og þar á að eyða kröftum og peningum ríkisins til að tryggja öryggi íslendinga sem eru búnir að koma sér vel fyrir beint ofan á eldfjallahrygg.
Allt frá því mannfólk fór að þvælast hingað norður á þetta stórhættulega sker hefur náttúran leikið það grátt. Eldgos hafa úðað úr sér svo miklum eiturgufum og hrauni að fólk hefur dáið eða flúið land í hópum. Hafís hefur oft lokað stórum hluta landsins, (hvernig ætlum við að bregðast við því þegar það gerist næst?) Veðrið á norðurhjara er jú ekkert grín, það þarf ekkert að fjölyrða um það frekar. Jarðskjálftar hafa einnig leikið frónbúa grátt eins og nýjustu dæmin sanna, og svo geta auðvitað mannýg óargadýr komið syndandi til lands að norðan.
Það eru greinilega ekki til almennilegar viðbragðsáætlanir við öllum þessum hættum, einhverjar eru þó til og víst hefur bót verið gerð í þeim efnum á undanförnum árum. En í þessum áætlunum reiða stjórnvöld sig að stóru leiti á framtak borgaranna sjálfra, sem eru björgunarsveitirnar. En eitt er víst að ekki duga neinar erlendar orrustuþotur eða sérsveitir og hersveitir til varnar verstu óvinunum. Þó gæti BB verið búinn að láta eyða mikilli vinnu í viðbragðsáætlun við innrás talibana eða hryðjuverkum Al Quaeda, maður skal ekki segja.
Ég er hvorki herstöðvarandstæðingur né kommúnisti, aðeins rétthugsandi einstaklingur sem vill ekki standa bölvandi eldrauður í framan af reiði á þeirri stundu sem stjórnvöld brugðust vegna þess að þau voru búin að vera svo upptekin af einhverju kjaftæði og gleymdu mikilvægum þáttum í öryggi landsins. Mörgum íbúum New Orleans leið einmitt þannig þegar þarlend stjórnvöld skitu upp á bak þegar náttúran lék borgina og nágrenni grátt fyrir nokkrum árum.
Sjálfstæð velmegunarþjóð á norðurhjara sem neyðist til að reka björgunar- og hjálparsveitir með óbreyttum borgurum í sjálfboðavinnu verður að hafa rétta forgangsröðun á hlutunum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.