Færsluflokkur: Trúmál og siðferði
5.3.2008 | 15:53
Eftirlitið
Það er eftirlit með hinu og þessu sem fólk er að gera í landinu. Það er til Fjármálaeftirlit, Heilbrigðiseftirlit, Vinnueftirlit, Skattaeftirlit, Lögregla og umferðareftirlit og hver veit hvað og svo eru eftirlitsmyndavélar út um allt þar að auki til að fylgjast með að allt fari eftir reglum og hægt sé að taka þrjóta fasta sem brjóta af sér.
En hvernig í fjandanum stendur á því að það er ekkert sem heitir eftirlit með trúarhópum og sértrúarsöfnuðum í landinu? Enginn nokkur maður fylgist með svindlurum og pretturum sem þykjast vera að hjálpa fólki sem er komið í öngstræti, oftast í áfengis- og fíkniefnavanda. Það þarf víst ekkert að fjölyrða um Sadó-Masó kónginn í Byrginu. Sumir svindlararnir nýta sér auðtrúa sálir sem auðmjúklega trúa á Guð og hið góða. Fólkið borgar "Guði" peninga af fúsum og frjálsum vilja og svo taka Gunnar í Krossinum og Snorri í Betel skælbrosandi á móti fénu og fitna eins og púkinn á fjósbitanum.
Sumir þessarra manna hafa makað krókinn ótæpilega á auðtrúa fólki og fylla hausinn á því af fordómum og rangfærslum og segja þær vera Guðs heilaga orð. Svei! Ef það á ekki að hafa eftirlit með svona svindlurum og illmennum þá veit ég ekki hvað.
19.12.2007 | 00:03
Jólasveinar
Einhvern tímann á síðustu öld var horuðu kryppukörlunum í rifnu fötunum breytt í feitar og pattaralegar fitubollur með hvítt skegg í rauðum búningum. En það vita ekki allir að það fyrirbæri var eitt fyrsta ameríska markaðshyggju-gimmikið sem laumaði sér inn um bakdyrnar á Íslandi. Það var nefnilega stórfyrirtækið Kóka kóla sem bjó til þennan rauða og feita sveinka og við Íslendingar svissuðum yfir í 13 pattaralega rauða kólasveina í staðinn fyrir bölvaða horgemlingana, það var greinilega orðið þreytt lúkk. Eitt skáldið ruglaðist á breytingaskeiðinu og hélt að jólasveinarnir væru einn og átta og orti um það lag.
En nöfnin á þessum furðufuglum fengu þó að halda sér og gefa ýmislegt til kynna. Þeir virðast vera dónalegir pervertar og þjófar þrátt fyrir að vera ögn vinalegri eftir breytingar. Kannski ekki skrýtið að 13 karlmenn verði skrýtnir af því að húka öldum saman í helli - rúma 11 mánuði á ári í senn. Það er til dæmis alger perraskapur að liggja á gluggum á gægjum og sá sem reynir að krækja í annarra manna bjúgu er líka alger perri. Manni getur líka dottið í hug í þessu samhengi eitt og annað ósiðlegt þegar nafngiftir eru dregnar af því að sleikja eitthvað. Svo voru tveir graðnaglar, Staur og Gaur sennilega mjög iðnir við kolann og einn sveinkinn er alltaf að þefa hér og þar, Guð má vita hvar.. Vesalings Stúfur, sá er örugglega búinn að fá að finna fyrir því í gegnum tíðina.
Restin af sveinunum virðast vera banhungraðir þurfalingar, sístelandi mat eða matarleifum eða betlandi kerti og spil. Svo er einn víst alveg hrikalega geðvondur gæi sem skapar smiðum heilmikla yfirvinnu við að laga hurðir og karma.
En versta við allt þetta jólasveinarugl er að við fullorðna fólkið kennum börnunum að það megi ekki ljúga og síðan ljúgum við sjálf að vesalings börnunum og hræðum þau með allskonar sögum af þessum skrýtnu köllum og að mamma þeirra sé versta illmenni sem til er. Stundum hótum við jafnvel krakkagreyjunum því að kellingin komi og stingi þeim í poka ef þau hagi sér ekki vel. Það er nú bara hreinasta illska að koma svona fram við börnin.
En nú til dags eru sveinkarnir reyndar orðnir ósköp líkir okkur mannfólkinu, þeir vinna allir fyrir stórfyrirtæki, verslanir og peningaöfl að einu markmiði, græða nógu andskoti mikið fyrir jólin.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 00:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 2
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 51521
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar